top of page

Skíði

Skíðadeild Leiknis er aðili að Skíðafélagi Fjarðabyggðar sem heldur utan um æfngar og keppnir. Æfingar fara fram á Skíðasvæðinu í Oddsskarði. Skíðaæfingar hefjast vanalega í janúar og standa út apríl og slá Andrésar Andarleikarnir vanalega botnin í skíða vertíðina. Krökkum á grunnskólaaldri er skipt í 3 æfingahópa eftir aldri.

 

Yngsti hópur (1.-3. bekkur)

Þessi hópur æfir 2 skipti í viku fyrst um sinn og eru æfingar um helgar, 2 klst. á laugardegi og 2 klst. á sunnudegi og inni í þessum 2 klst. er nestispása. Um miðjan febrúar bætist við æfing á miðvikudögum sem er 1,5 klst. án nestispásu. Flestar æfingar fara fram í barnalyftu.

Keppt er á tveimur mótum innan fjórðungs (Austurlandsmóti og Fjarðarálsmóti) annað í Stafdal og hitt í Oddsskarði og Andrésar Andarleikunum á Akureyri.

Reynt er að fara með þennan hóp eina helgi annað hvort í Stafdal eða norður í Mývatn til æfinga og skemmtunar til að brjóta upp veturinn.

Æfingagjald eru um 25.000 kr. og lyftukort (árskort) er innifalið í æfingagjaldi.

 

Mið hópur (4.-6 bekkur)

Þessi hópur æfir 4 skipti í viku samkvæmt æfingatöflu en þar sem veður setur oft strik í reikninginn eru æfingar þegar veður leyfir og skíðasvæðið er opið. Æfingarnar eru 2 klst. með nestispásu. Um helgar eru stundum 2 æfingar sama daginn en það fer eftir aðstæðum og veðri og hvort margar æfingar hafa fallið niður vegna veðurs. Flestar æfingar fara fram í 1. lyftu, (í Suðurbakka).

Keppt er á tveimur mótum innan fjórðungs (Austurlandsmóti og Fjarðarálsmóti) annað í Stafdal og hitt í Oddsskarði, Jónsmóti á Dalvík fyrstu helgina í mars og Andrésar Andarleikunum á Akureyri.

Þessi hópur fer oftast með yngsta hópnum eina helgi annað hvort í Stafdal eða norður í Mývatn til æfinga og skemmtunar til að brjóta upp veturinn.

Æfingagjald eru  30.000 kr. Lyftukort (árskort) er innifalið í æfingagjaldi.

 

Elsti hópur (7. bekkur og eldri)

Þessi hópur æfir 5 skipti í viku samkvæmt æfingatöflu en þar sem veður setur oft strik í reikninginn eru æfingar alltaf þegar skíðasvæðið er opið og veður leyfir. Æfingarnar eru 2 klst. með nestispásu.  Um helgar eru stundum 2 æfingar sama daginn en það fer eftir aðstæðum og veðri og hvort margar æfingar hafa fallið niður vegna veðurs. Flestar æfingar fara fram í 1. lyftu (í Suðurbakka).

Keppt er á tveimur mótum innan fjórðungs (Austurlandsmóti og Fjarðarálsmóti) annað í Stafdal og hitt í Oddsskarði, Jónsmóti á Dalvík fyrstu helgina í mars (bara upp í 13 ára, þ.e. 7. og 8. bekkur), tveimur bikarmótum (staðsetning á þeim er breytileg milli ára), Unglingameistaramóti Íslands (staðsetning er breytileg milli ára) og Andrésar Andarleikunum á Akureyri.

Æfingagjald eru  35.000 kr. Lyftukort (árskort) er innifalið í æfingagjaldi.

 

Síða SFF

Skíðafélag Fjarðabyggðar er með síðuna https://www.facebook.com/sffskidi

Þar er hægt að fylgjast með hvenær æfingar hefjast í janúar, þar kemur inn æfingatafla og hægt að sjá hvort eru æfingar t.d. vegna veðurs.

 

Rúta

Börn hafa möguleika á að taka rútu á æfingar frá sínum byggðarkjarna á virkum dögum. Ekki er rúta um helgar. Hafa ber í huga að ekki er gæsla í rútunni eða aðstoðarmaður til að hjálpa í búnað á skíðasvæði þannig að barn þarf að vera sjálfbjarga með sinn búnað úr rútu og klæða sig í hann. Ekki er leyfilegt að klæðast skíðaklossum í rútunni heldur er búnaður geymdur í farangursgeymslu. Sækja þarf börn að æfingu lokinni. Það er ekki rúta heim af æfingum.

 

Búnaður

Foreldrar sjá um að útvega börnum þann búnað og fatnað sem þarf til æfinga og keppni.

Skíðafélag Fjarðabyggðar hefur í gegnum tíðina staðið fyrir að keyptur er merktur æfinga og keppnis fatnaður en foreldrar kaupa fatnaðinn á sín börn en félagið niðurgreiðir fatnaðinn. Fyrir nýja iðkendur er oft hægt að kaupa notaðan slíkan fatnað á síðunni. https://www.facebook.com/groups/877828232268694 (skíðamarkaður SFF)

Einnig er þar oft hægt að finna notaðan búnað.

 

Æfingagjöld, systkinaafsláttur og kostnaður við keppni

Æfingagjöld eru mismunandi eftir hópum og eru tilgreind undir hverjum hópi. Veittur eru 25% afsláttur fyrir systkini og frítt er fyrir 3. barn og fleiri. Ef ekki hentar barni að æfa eins oft og tilgreint er í æfingatöflu er samt sem áður ekkert mál að stunda æfingar (og skoða tilhögun æfingagjalda eftir því). Þá er um að gera að hafa samband við edvaldg@gmail.com

 

Foreldrar standa straum af kostnaði við keppni, bæði þátttökugjöldum, ferðakostnaði og uppihaldi meðan á mótum stendur. Deildin hefur farið í fjáraflanir fyrir keppnisferðir utan fjórðungs s.s. Andrésar Andarleikana til að lækka kostnað sem fellur á foreldra.

bottom of page