top of page

Saga Ungmennafélagsins Leiknis

Ungmennafélagið Leiknir var stofnað þann 25. desember 1940. Búðahreppur veitti félaginu starfsstyrk strax á öðru starfsári og var hann háður skilyrði um kennslustarf í knattleikjum og fleiri íþróttaleikjum. 

 

Á fyrstu starfsárum Leiknis voru haldin námskeið í mörgum helstu íþróttagreinum. Leikfimi, handknattleikur, knattspyrna og frjálsar íþróttir voru kenndar á árunum 1941 og 1942 og sóttu jafnt börn og fullorðnir, karlar og konur námskeiðin. 

 

Fyrsta keppni Leiknis var háð í handknattleik við Ungmennafélag stöðfirðinga á fyrsta starfsárinu, árið eftir var líka keppt við Stöðfirðinga í frjálsum íþróttum, knattspyrnu og handknattleik. Þá var haldin fimleikasýning á jóladag 1942 í barnaskólanum. Íþróttafólkið fór síðar að sækja mót norður á næstu firði og upp á Hérað en vegleysur gerðu slíkar ferðir erfiðar fyrstu árin. Venja var að fara á bátum í keppnisferðir á milli fjarða.

 

Til hliðar við ungmennafélagið var einnig stofnað skíðafélagið Svanur sem reisti skíðaskála á Búðaheiði og kepptu félagar í því félagi á fyrsta skíðamóti Austurlands sem haldið var á Fagradal 1945.

 

Eftir því sem árin liðu efldist starf Leiknis og í árskýrslum frá því um og eftir 1950 fjölgar frásögnum af íþróttaæfingum og keppnisferðum. 

 

Fljótlega eftir stofnun Leiknis kom upp sú hugmynd að félagið beitti sér fyrir byggingu sundlaugar á Fáskrúðsfirði. Í ársskýrslu Leiknis árið 1942 kemur fram að lagðar hafi verið 500 krónur í sundlaugarsjóð. Sundlaugarbyggingin var mikil fjárfesting fyrir Búðarhrepp, peningar fengust úr Íþróttasjóði ríkisins og félagar í ungmennafélaginu unnu mikla sjálfboðavinnu. Sundlaugin var sú þriðja sem byggð var á Austurlandi en áður voru komnar laugar á Eiðum og í Neskaupsstað. Sundlaugin var tekin í notkun sumarið 1947.

 

Ungmennafélagið stóð líka fyrir öflugu félagsstarfi. Leikni var fljótlega falið að sjá um hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn og sá félagið um hátíð í tilefni lýðveldisstofnunarinnar árið 1944. Skemmtinefnd var starfandi innan félagsins og hélt hún samkomur með skemmtidagskrá og dansleikjum og setti á svið leiksýningar. 

 

Í ársskýrslu Leiknis frá 1951 er fyrst minnst á umræður um byggingu félagsheimilis. Félagsheimilið Skrúður var vígt vorið 1963 en samstarf hafði þá tekist með Leikni og öðrum félagasamtökum á Fáskrúðsfirði sem lögðu fram mikla vinnu við fjaröflun til byggingarinnar. Félögin áttu svo 20% í félagsheimilinu á móti sveitarfélaginu. 

 

Árið 1979 gaf Lionsklúbbur Fáskrúðsfjarðar Leikni skíðalyftu að gjöf sem sett var upp í hlíðinni ofan við þorpið. Félagið stofnaði í kjölfarið skíðaráð sem stafaði af miklum krafti næsta áratug en eftir það lagðist skíðastarfið af.

 

Tvö íþróttamannvirki voru reist á Fáskrúðsfirði í lok síðustu aldar. Nýr grasvöllur, Búðagrund, var tekin í notkun 1990 og Leiknishúsið reist ofan við hann. Þar var aðstaða fyrir smærri fundi og í fyrstu búningsaðstaða íþróttafólks.  Árið 1997 var svo tekið í notkun nýtt íþróttahús innan við völlinn. Leiknir kom að auki upp líkamsræktaraðstöðu í íþróttahúsinu sem félagið rekur. 

 

Eftir hálfrar aldar afmæli leiknis var félaginu skipt í deildir eftir íþróttagreinum en deildirnar hafa sjálfstæðan fjárhag. Fimm deildir starfa innan félagsins í dag, Knattspyrnudeild, frjálsíþróttadeild, sunddeild, blakdeild og fimleikadeild. 


 

Heimld: Magnús Stefánsson, Tímarit Franskra daga, 13. árgangur, 2015. https://timarit.is/page/6256402# 

bottom of page