Ungmennafélagið Leiknir
Ungmennafélagið Leiknir var stofnað 1940 og hefur alla tíð síðan verið driffjöður í æskulýðs- og íþróttastarfi á Fáskrúðsfirði. Eins og svo mörg önnur ungmennafélög þess tíma var Leiknir með innan sinna vébanda leiklist, fimleika, félagsmál auk keppnisíþrótta. Allt starf byggist eins og áður á sjálfboðastarfi. Leiknir er í dag deildarskipt félag og eru starfandi fimm deildir innan þess, knattspyrnudeild, sunddeild, frjálsíþróttadeild, blakdeild og fimleikadeild.
Aðalstjórn félagsins hefur séð um rekstur og uppbyggingu þreksalar í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði. Salurinn er mikið notaður og hefur gerbreytt allri aðstöðu félagsmanna og annarra íbúa til líkamsþjálfunar. Félagið á einnig og rekur þjónustuhús við íþróttavöllinn, en þar eru skrifstofur félagsins.
Mikil gróska er í starfi knattspyrnudeildar. Leiknir er með lið í fyrstu deild meistaraflokks karla og með lið í meistaraflokki kvenna í samstarfi við Fjarðabyggð og Hött. Auk þess tekur Leiknir þátt í yngriflokkastarfi Fjarðabyggðar.
Öflugt starf er í blakinu þar sem meðal annars er ferðast landshorna milli til keppni.
Leiknir hefur um árabil tekið þátt í sundmótum og starfað á þeim vettvangi en á Fáskrúðsfirði er lítil innilaug sem er ein elsta sundlaug fjórðungsins.
Í frjálsum íþróttum hafa Leiknismenn í gegnum árin átt góða keppendur sem jafnvel hafa náð inn í landslið.
Leiknir heldur árlega svokallað sólarkaffi þar sem því er fagnað að sólin kemur upp yfir suðurfjöllin eftir rúmlega tveggja mánaða fjarveru. Við það tækifæri eru íþróttafólki jafnframt veittar viðurkenningar og verðlaun í ýmsum flokkum og útnefndur íþróttamaður Leiknis.