Uppeldisstefna knattspyrnudeildar Leiknis og Yngri flokka Fjarðabyggðar
Markmið með íþrótta- og uppeldisstefnu knattspyrnudeildar Leiknis er að skapa framtíðarskipulag og móta áætlun til lengri tíma til að vinna eftir fyrir þjálfara, iðkendur, stjórnendur, foreldra og aðra félagsmenn.
Mikilvægt er að hafa þessa stefnu skýra ekki síst vegna mikils samstarfs og sameiginlegra liða Leiknis, Vals, Austra og Þróttar undir nafninu Yngri flokkar Fjarðabyggðar - YFF. Leiknir eins og önnur aðildarfélög samstarfsins heldur úti æfingum á sínu svæði (Fáskrúðsfirði) en einnig eru samæfingar í Fjarðabyggðarhöllinni með hinum félögunum. Með því að setja stefnuna fram fyrir öll íþróttafélögin er lagður grunnur að eflingu og vellíðan iðkenda. Jafnframt er stefnt að því að greina hæfileikaríka einstaklinga sem fyrst og leggja rækt við að gera góðan efnivið betri.
Ef rétt er haldið á spilunum næst góður árangur og auðveldara er fyrir knattspyrnudeild Leiknis að viðhalda markvissu og árangursríku starfi hjá komandi kynslóðum. Markvisst uppbyggingarstarf þar sem allir stefna að sama markmiði skilar Leikni inn í framtíðina sem enn sterkara og öflugra félagi bæði stjórnunarlega og íþróttalega.
1. Markmið sem UMF Leiknir vinnur eftir
1.1 Meginmarkmið sem snúa að félagslegum þáttum
-
Í barna- og unglingastarfi er höfuðáherslan lögð á uppeldislegt gildi íþróttaiðkunar og kynningu á því samfélagi sem UMF Leiknir er. Félagi þar sem allir geta notið sín og fá verkefni við sitt hæfi.
-
Að styrkja einstaklinginn og efla sjálfsmynd hans, bæði andlega og líkamlega.
-
Að hver einstaklingur sjái styrk í því að lifa heilbrigðu líferni, heilbrigð sál í hraustum líkama.
-
Að umgangast aðra, vinna saman, skynja vandamál og leysa þau.
-
Að auka löngun iðkenda til að ná langt í sinni íþrótt.
-
Að æfingaáætlun liggi fyrir hjá hverjum flokki í byrjun starfsársins.
-
Að hvetja foreldra til að sýna íþróttaiðkun barna sinna jákvæðan áhuga, vera hvetjandi varðandi ástundun þeirra, veita þeim skýran ramma hvað varðar æfingasókn, fylgja þeim á mót/leiki og fylgjast með æfingum. Slík hvatning er börnunum mikils virði og eykur líkurnar á að þau haldi áfram að stunda íþróttir.
-
Þegar að iðkendur eldast viljum við hvetja þá til að taka þátt í starfinu s.s. gerast aðstoðarþjálfarar hjá yngstu iðkendum, fara á þjálfaranámskeið eða dómaranámskeið. Þegar að þessir einstaklingar hætta síðan æfingum þá verði þeir tilbúnir til þess að leggja á sig vinnu fyrir deildina og axla stjórnunarábyrgð.
1.2 Meginþættir sem snúa að íþróttalegum þáttum
-
Að kenna börnum aga, stundvísi og virðingu.
-
Að efla skyn- og hreyfiþroska iðkenda.
-
Að efla íþróttaþroska barna.
-
Að efla félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska iðkenda.
-
Að veita jafnt stúlkum sem piltum fjölbreytt íþróttauppeldi.
-
Vinna gegn brottfalli eldri iðkenda.
-
Að byggja upp hjá börnum heilbrigðar og hollar lífsvenjur.
-
Að efla félagsvitund Leiknisfélaga þannig að þeim sé það ljóst að það sé merki Leiknis sem þau eru að koma fram fyrir.
-
Að allir félagar eigi gott Leiknishjarta og vilji leggja sitt af mörkum til þess að efla félagið.
-
Að Leiknir og samstarfsfélög ráði aðeins til sín menntaða þjálfara, með það að leiðarljósi að menntaðir þjálfarar með áhuga fyrir starfi sínu laði að sér fleiri iðkendur og skili betra íþróttalegu starfi.
-
Að stefna að því að skapa iðkendum sem besta aðstöðu til iðkunar íþróttar sinnar og keppni.
-
Að iðkendum séu alltaf veittar viðurkenningar í lok hvers starfsárs.
1.3 Hvernig náum við þessum markmiðum?
Gott er að hafa alltaf að leiðarljósi að við viljum gera betur en við gerum í dag. Nauðsynlegt er að vera opin og sveigjanleg fyrir nýjum hugmyndum. Nauðsynlegt er að allir miðli reynslu sinni, þekkingu og skoðunum til að ná fram sem bestum árangri í starfinu.Nauðsynlegt er að efla foreldrasamstarf bæði innan Leiknis og samstarfsfélaganna, til þess að sem flestir foreldrar verði virkir, svo auðveldara sé að ná uppeldismarkmiðum.
Gott upplýsingastreymi innan félagsins er mikilvægt. Vefsíða knattspyrnudeildar Leiknis, fésbókarsíða félagsins og fésbókarsíður hvers flokks auðvelda samskipti og skipulag. Með sameiginlegu átaki foreldra og stjórnenda má sporna við brottfalli. Nauðsynlegt er að fræða foreldra og iðkendur um áherslur á æfingum og keppnum.
Mikilvægt er að þjálfarar samstarfsfélaganna, þeir þjálfarar sem sjá um samæfingar og stjórnarmenn Leiknis eigi farsælt og gott samstarf. Allir aðilar þurfa að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt þjálfarastarfið er, bæði hvað varðar uppeldi, félagsmótun og þjálfun. Með aukinni menntun þjálfara og markvissri kynningu á markmiðum Leiknis og samstarfsfélaganna er hægt að ná þessum markmiðum.
2. Félagsstarf UMF Leiknis og samstarfsfélaga
2.1 Markmið félagsstarfs
Markmið með félagsstarfi geta verið mismunandi en t.d. mætti nefna:
-
Að vekja, hlúa að og efla áhuga iðkenda fyrir þroskandi félagsstarfi.
-
Að starfið miðist við þarfir hópsins og efli þannig samkennd iðkenda.
-
Að starfið þjálfi nemendur í hópvinnu og tjáningu og gefi þeim tækifæri til að takast á við ný og fjölbreytt viðfangsefni.
-
Að auka samvinnu.
-
Að auka virðingu fyrir reglum.
-
Að fræða.
2.2 Hugmyndir að félagsstarfi
-
Spilakvöld.
-
Videokvöld (þjálfarar haldi videokvöld fyrir sína hópa).
-
Kvöldvökur með skemmtiatriðum.
-
Dans, t.d. diskó eða náttfataball.
-
Keppni í óhefðbundnum íþróttagreinum.
-
Foreldrakvöld.
-
Útivist, ratleikir.
-
Ferðalög.
3. Foreldrastarf hjá UMF Leikni
Markmið UMF Leiknis og samstarfsfélaganna er að foreldraráð starfi í öllum flokkum félaganna. Þannig sé tryggt að foreldrar geti með frumkvæði sínu og hugmyndum eflt íþróttina og haft áhrif á aðstöðu og fjárhag samstarfsfélaganna og jafnframt aumgjörð og aðbúnað við æfingar og keppni iðkenda.
Skipa skal foreldraráð fyrir hvern flokk, til eins árs í senn. Í foreldraráði er eitt eða tvö foreldri frá hverju félagi/byggðakjarna. Skipa skal nýtt foreldraráð í upphafi æfingatímabils eða eigi síðar en í upphafi keppnistímabils.
3.1 Hlutverk foreldraráðs
-
Vera tengiliður milli þjálfara og foreldra og foreldra og stjórnar YFF.
-
Aðstoða þjálfara við skipulagningu keppnisferða ma ferða á opin mót.
-
Efla tengsl milli samstarfsfélaganna.
-
Stuðla að vellíðan iðkenda í leik og starfi.
3.2 Nokkrir punktar fyrir foreldra að hafa í huga
-
Hvetjið börnin til þátttöku.
-
Ekki þvinga þau, ánægja þeirra og áhugi er það sem máli skiptir.
-
Mætið bæði á leiki og á æfingar
-
Það hvetur og uppörvar börnin að finna fyrir áhuga ykkar.
-
Berið virðingu fyrir störfum þjálfarans. Ekki reyna að hafa áhrif á hann meðan á leik eða æfingu stendur og látið hann um þjálfunina og leikstjórnunina. Ekki hrópa og kalla á ykkar börn á æfingum, það truflar einbeitingu þeirra og gerir þau taugaóstyrk.
-
Hvetjið liðið í heild, ekki bara ykkar börn.
-
Látið aðeins jákvæð og hvetjandi orð frá ykkur fara á meðan leikur stendur.
-
Þetta er bara leikur og ánægjan yfir því að taka þátt er númer eitt.
-
Hafið hvatninguna einfalda og almenna. Ekki reyna að fjarstýra börnunum frá hliðarlínunni, það ruglar þau bara.
-
Stuðlið að jákvæðum samskiptum við foreldra frá öðrum félögum. Rígur og metingur eiga ekki heima á þessum vettvangi.
-
Sýnið ekki mótherjum barnanna ykkar neikvætt viðhorf. Gagnkvæm virðing og kurteisi er hinn sanni íþróttaandi.
-
Hvetjið börnin bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs. Ekki gagnrýna þegar illa gengur. Hvetjið þau og uppörvið eftir tapleiki og klappið fyrir þeim þó leikurinn hafi ekki unnist.
-
Keppnisdagur er alltaf hátíðisdagur. Sama hvernig leikurinn fer, látum óhagstæð úrslit ekki spilla fyrir því
4. Fræðsla og forvarnarstarf UMF Leiknis
Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnarstarfi. Áfengis- og eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tenglum við íþróttastarf með börnum og unglingum, eða birtast svo sem í áfengissölu í tengslum við íþróttakeppni, reykingum og munntóbaksneyslu á íþróttasvæðum eða áfengisauglýsingum á eða við velli. Neysla leikmanna á einhverskonar vímuefnum í fatnaði félagsins er bönnuð og skrifa leikmenn mfl. kk. undir samning þar um.
5. Umhverfismál
-
UMF Leiknir hvetur leikmenn innan félagsins, samstarfsfélaga og foreldra til sparnaðar í keyrslu á æfingar og keppni með því að sameinast um bíla.
-
Ruslafötur eru til staðar á æfinga- og keppnissvæðum á öllum völlum í Fjarðabyggð og viðkomandi aðilar upplýstir um það.
-
Tiltekt fer fram að lokinni æfingu og keppni.
-
Aðgengi er fyrir fatlaða.
-
Æfinga- og keppnissvæði UMF Leiknis og samstarfsfélaga eru reyklaus.
-
Pappír er losaður á sérstökum losunarsvæðum.
-
UMF Leiknir safnar dósum og flöskum í fjáröflunarskyni og er með dósakúlu aðgengilega fyrir almenning. Dósum er síðan skilað á þar til gerðan stað þar sem skilagjald fæst fyrir.
-
Deildin hvetur iðkendur að forðast ónauðsynlegar innpakkningar. Stjórnarfólk innan knattspyrnudeildar UMF Leiknis og samstarfsfélaga, starfsmenn, þjálfarar og leikmenn eru hvattir til að fylgja þessari stefnu og miðla sín á milli.
6. Starf þjálfara
6.1 Almennar skyldur þjálfara
-
Þjálfari skal mæta tímalega og vel undirbúinn fyrir hverja æfingu og keppni. Forföll samæfingaþjálfara skal tilkynna eins fljótt og unnt er til yfirþjálfara Yngri flokka Fjarðabyggðar. Ef félagsþjálfari forfallast skal hann hringja út afleysingaþjálfara af fyrirfram samþykktum lista knattspyrnuráðs UMF Leiknis eða tilkynna formanni ráðsins um forföllin ef ekki næst í afleysingaþjálfara.
-
Þjálfari skal fylla út mætingaskýrslur og skila þeim inn mánaðalega eða þegar knattspyrnuráðs óskar þess.
-
Þjálfari getur ekki skuldbundið deildina á einn eða annan hátt, nema með skriflegu umboði formanns eða gjaldkera.
-
Þjálfara er ekki heimilt að ráða sig í þjálfun eða spila með öðru félagi án samþykkis Yngriflokkaráðs Fjarðabyggðar (gildi fyrir samæfingaþjáflara) eða stjórnar knattspyrnudeildar UMF Leiknis (á við um félagsþjálfara).
-
Þjálfari ber fulla ábyrgð á þeim eigum félagsins sem honum er treyst fyrir, og sér til þess að gengið sé tryggilega frá öllum búnaði eftir hverja æfingu og keppni.
6.2 Verklagsreglur varðandi æfingar og keppni í öðrum flokkum en réttum aldursflokki.
Þegar iðkendur í yngri flokkum UMF Leiknis stunda æfingar og/eða keppni upp um flokk skulu eftirfarandi reglur gilda og vera hafðar í heiðri að fullu:
-
Hagsmunir iðkanda skulu ráða ferðinni umfram hagsmuni félags.
-
Að teknu tilliti til hagsmuna iðkanda skulu hagsmunir félags ganga næstir, síðan hagsmunir aðalflokks, næst hagsmunir aukaflokks og loks hagsmunir þjálfara.
-
Að jafnaði æfa og keppa iðkendur einungis innan þess flokks sem aldur þeirra segir til um og þjálfari þess flokks telst aðalþjálfari iðkandans.
-
Falli iðkandi vegna hæfni sinnar og líkamsburða betur inn í eldri flokk en þann sem aldur hans segir til um skal heimilt að færa hann upp um flokk. Eldri flokkur verður þá aðalflokkur hans og þjálfari þess flokks aðalþjálfari iðkandans. Þetta er því aðeins heimilt að:
-
Það sé samdóma álit þjálfara aldursflokks iðkanda og þjálfara eldra flokks að æfing og keppni með aldursflokki kunni að verða knattspyrnulegum, líkamlegum eða félagslegum þroska iðkandans til trafala.
-
Samþykki forráðamanna (foreldra) iðkanda liggi fyrir.
-
Samþykki þjálfara aldursflokks iðkanda liggi fyrir.
-
Samþykki stjórnar knattspyrnudeildar liggi fyrir.
-
-
Heimilt skal að bjóða iðkanda þátttöku á einstökum æfingum eldra flokks, hafi hann líkamsburði til þess án aukinnar meiðslahættu. Þess skal þá gætt að:
-
Samþykki forráðamanns (foreldris) skal fengið fyrir því að iðkandi sæki æfingar eldra flokks.
-
Allar boðanir skulu fara fram í gegn um aðalþjálfara iðkandans.
-
Samþykki aðalþjálfara liggi fyrir.
-
Þátttaka í æfingum komi ekki niður á starfi í aðalflokki.
-
-
Heimilt skal að kalla iðkanda til keppni með eldra flokki, hafi hann hæfni og líkamsburði til þess án aukinnar meiðslahættu. Þess skal þá gætt að:
-
Tilkoma yngri leimanns komi ekki niður á þátttöku einstakra leikmanna eldra flokks í keppni.
-
Samþykki forráðamanns (foreldris) liggi fyrir.
-
Allar boðanir skulu fara fram í gegn um aðalþjálfara iðkandans.
-
Samþykki aðalþjálfara liggi fyrir.
-
Keppni komi ekki niður á starfi í aðalflokki.
-
-
Þjálfara skal einungis heimilt að kalla leikmenn úr yngra flokki til keppni ef hann hefur ekki nægilegan fjölda leikmanna í sínum flokki til að fylla leikhóp. Iðkandi úr yngra flokki skal þá aðeins vera í byrjunarliði að ekki náist í ellefu manna lið úr aldurshópi.
-
Þjálfari aukaflokks skal virða starf aðalþjálfara og gæta þess að rýra hans starf ekki í einu eða öðru.
-
Þjálfara aukaflokks er óheimilt að ræða ætlanir sínar varðandi æfingar eða keppni við leikmann úr yngra flokk án þess að hafa rætt þær við forráðamann og aðalþjálfara áður.
-
Telji þjálfari aukaflokks afstöðu aðalþjálfara iðkanda ganga í berhögg við hagsmuni iðkandans getur hann vísað henni til stjórnar knattspyrnudeildar, sem mun þá fjalla um hana innan viku frá því mál berst framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar.
Afstöðu og ákvörðunum forráðamanns skal undantekningalaust hlíta að fullu.