Lög Ungmennafélags Leiknir
1. gr. - Heiti félags.
Félagið heitir Ungmennafélagið Leiknir, skammstafað U.M.F.L. Heimili þess og varnarþing er Fáskrúðsfjörður, Suður-Múlasýslu.
Markmið félagsins er að stuðla að iðkun íþrótta, efla líkamsrækt og félagsstarf eftir því sem aðstæður félagsins leyfa og hugur félagsmanna stendur til.
2. gr. - Merki og búningur.
Merki félagsins er skjaldmynd, fótknöttur á hvítum grunni, umritaður nafni félagsins í rauðum stöfum.
Búningur félagsins er rauð treyja, rauðar buxur og sokkar eftir því sem við á.
Varabúningur félagsins er hvítur.
3. gr. - Aðild að samtökum.
Félagið er aðili að U.Í.A. og á þann hátt aðili að U.M.F.Í. og Í.S.Í.
4. gr. - Deildir.
Félaginu er skipt í deildir með sjálfstæðri stjórn og fjárhag. Deildarstjórnir bera ábyrgð á málefnum deilda milli aðalfunda þeirra.
Ársreikningar deilda skulu lagðir fram á aðalfundi félagsins.
5. gr. - Félagar.
Félagar eru: 1. Virkir félagar. 2. Styrktarfélagar. 3. Heiðursfélagar.
Félagar geta allir orðið sem æskja þess og virða reglur félagsins.
Sækja skal um aðild til aðalstjórnar sem heldur félagaskrá yfir félagsmenn. Á sama hátt skal fara með úrsögn. Allir sem keppa undir merkjum félagsins skulu skráðir í félagið og sjá viðkomandi deildir um þá skráningu og skila inn til ritara aðalstjórnar.
6. gr. Gjöld.
Aðalfundur félagsins ákveður félagsgjöld en æfingagjöld ákveða stjórnir deilda. Þeir einir sem standa í skilum við félagið eru fullgildir félagar. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Víkja má mönnum úr félaginu fyrir vítaverða framkomu og skal sú ákvörðun tekin á aðalfundi.
7. gr. - Stjórnarkjör.
Aðalfundur félagsins kýs fimm manna stjórn, formann, varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir í stjórn í einu lagi og skipta þeir með sér verkum. Stjórnarmenn kosnir á aðalfundi, mega ekki vera formenn deilda félagsins.
8. gr. - Deildir.
Aðalfundur hverrar deildar kýs sér 5 manna stjórn, formann, varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Hver deild skal halda nákvæma gerðabók. Að öðru leyti vísast til 4.gr. og 7.gr.
9. gr. - Aðalfundur.
Aðalfund UMF Leiknis skal halda eigi síðar en í mars ár hvert og skal til hans boðað með viku fyrirvara. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Kosningarétt og kjörgengi hafa allir félagar 16 ára og eldri. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, utan breytinga á lögum félagsins, sem verða að hljóta 2/3 greiddra atkvæða til að ná fram að ganga.
Dagskrá aðalfundar er þessi,
-
Fundarsetning.
-
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
-
Skýrsla stjórnar.
-
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
-
Skýrslur deilda.
-
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar deilda.
-
Inntaka nýrra félaga.
-
Lagabreytingar.
-
Félagsgjöld ákvörðuð.
-
Kosningar a) formanns b) annarra stjórnarmanna c) skoðunarmenn reikninga.
-
Önnur mál.
10. gr. - Aukaaðalfundur.
Aukaaðalfund félagsins skal halda ef aðalstjórn telur þess þörf eða ef það er samþykkt á aðalfundi. Einnig skal halda hann ef 20% félagsmanna fara skriflega fram á það. Aukaaðalfund skal boða með sama fyrirvara og aðalfund og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Hann hefur sama vald og aðalfundur.
11. gr. - Aðalfundir deilda.
Aðalfundi deilda skal halda eigi síðar en í febrúar ár hvert og skal til þeirra boðað með viku fyrirvara. Aðalfundir deilda teljast lögmætir ef löglega er til þeirra boðað. Kjörgengi hafa allir félagar Leiknis 16 ára og eldri. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála.
Dagskrá fundanna er þessi.
-
Fundarsetning
-
Kosning fundarstjóra og ritara.
-
Skýrslur stjórna.
-
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
-
Æfingagjöld ákveðin.
-
Kosningar a) formanns b) annarra stjórnarmanna c) skoðunarmanna reikninga.
-
Önnur mál.
12. gr. - Reikningsár.
Reikningsár félagsins og deilda þess er almanaksárið.
13. gr. - Verkefni aðalstjórnar.
Aðalstjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda. Hún skal leitast við að efla félagið eftir megni og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún fer með eignir félagsins og ráðstafar þeim í samráði við deildir. Hún sækir um styrki til sveitarfélagsins og æfingartíma í íþróttamannvirkjum þess og úthlutar þeim til deilda. Hún skiptir sameiginlegum tekjum á milli deilda, samþykkir fjáraflanir þeirra og fylgist með að þær rekist ekki á. Aðalstjórn fylgist með rekstri deilda og hefur afskipti af telji hún þess þörf. Aðalstjórn heldur félagatal og hefur ritari yfirumsjón með því.
14. gr. - Heiðursfélagar.
Heimilt er að kjósa heiðursfélaga félagsins og skal tillaga þar um samþykkt á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða. Hann skal hafa náð 60 ára aldri.
15. gr. - Íþróttamenn Leiknis.
Aðalstjórn kýs íþróttamann ársins. Skal hún leitast við að velja þann einstakling sem skarað hefur fram úr bæði í íþrótt sinni og háttsemi. Kjöri skal lýst á Sólarkaffi félagsins sem halda skal árlega, þar skulu deildir einnig veita verðlaun og viðurkenningar.
16. gr. - Stofnun deilda.
Komi fram ósk meðal félagsmanna um stofnun deildar innan félagsins skal aðalstjórn vinna að því að koma henni á fót telji hún grundvöll til þess.
17. gr. - Um eignarhald.
Eignir deilda teljast sameign félagsins. Hætti deild starfsemi tekur aðalstjórn við eignum hennar og ráðstafar eftir samþykki næsta aðalfundar. Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin samþykki aðalfundar. Hætti UMF Leiknir starfsemi renna allar eignir þess til sveitarfélagsins sem ráðstafar þeim.
18. gr. - Skuldsetning.
Óheimilt er að skuldsetja félagið og deildir þess umfram það sem nemur 25% af áætluðum tekjum samkvæmt fjárhagsáætlun sem gera skal í upphafi starfsárs.
19. gr. - Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt úr gildi fallin eldri lög félagsins.
Lög þessi eru samþykkt á aðalfundi í júní 2008.