top of page
  • Writer's pictureKnattspyrnudeild

Af ferðalögum og fótbolta

Updated: Sep 25, 2020

Eins og allur almenningur veit ferðast Leiknir F mest allra félaga í landsdeildum hérlendis. Við höfðum heppnina heldur ekki með okkur þegar leikjaplani Lengjudeildarinnar var breytt vegna Covid.

Síðasta rúm vika hjá okkur var nokkuð ströng. Laugardaginn 12. lékum við gegn nöfnum okkar í Reykjavík. Við notuðum okkur að kaupa seinkun á fluginu og sluppum þannig við að gista í höfuðborginni, komumst sem sagt fram og til baka á einum degi. Við töpuðum í Breiðholtinu, einkum fyrir að þeir voru betri í leiknum. En einnig vegna þess að dómari leiksins hafði ekki döngun í sér að dæma okkur augljóst víti í uppbótartíma.

Lokatölur Leiknir-Leiknir 2-1.


Við áttum síðan samkvæmt plani að spila við ÍBV í Eyjum sl miðvikudag. Vegna afleitrar veðurspár fyrir miðvikudaginn brugðum við á það í góðu samráði við ÍBV og KSÍ að flýta leiknum til þriðjudagskvölds. Það var sem sagt ákveðið á mánudaginn að leggja samdægurs af stað til Eyja og flýta öllum bókunum um sólarhring; bílaleigubílum frá Egs og Rvík (að sjálfsögðu Bílaleiga Akureyrar), gistingu á Hótel Dyrhólaey hjá Steinþóri bónda og siglingu með Herjólfi. Það var síðan lagt af stað um kl 17 og komið í Mýrdalinn milli kl 22 og 23. Á þriðjudegi var siglt til Eyja og sótt eitt stig sem okkur vantaði reyndar sárlega. Síðan siglt í land og keyrt austur að mestu á löglegum hraða. Menn komnir heim um tvöleytið um nóttina.

Lokatölur 0-0.

Þess má geta að þetta var fyrsti opinberi leikur Leiknis og ÍBV, að minnsta kosti hafa félögin aldrei fyrr leikið saman í deild á Íslandsmótinu.


Síðastur í þríleiknum var leikur við Vestra á Ísafirði sl sunnudag, 20. sept. Planið var að keyra á Akureyri á sunnudagsmorgni og taka leiguflug þaðan, fram og til baka samdægurs og keyra heim um kvöldið. Þetta hefði ekki átt að taka nema 17 klst. Skólastrákarnir okkar í Rvík áttu að fljúga með okkar ástkæra Air Iceland Connect vestur og keyra bílaleigubíl í bæinn eftir leik.

Enn setti veðrið strik í reikning og erum við þakklátir Samúel hjá Vestra fyrir aðvara okkur í tíma. Á föstudag var ljóst að allt flug á Ísafjörð þessa helgi væri í besta falli hæpið. Niðurstaðan varð því sú að liðið flaug til Rvíkur á laugardagsmorgni og síðan var keyrt af vestur, tæpir 450 km. Gist á Hótel Ísafirði og snæddur kvöldverður í Edinborgarhúsinu sem óhætt er að mæla með. Við lékum síðan við Vestra kl 11 morguninn eftir, við óboðlegar aðstæður. Völlurinn á floti eftir margra daga rigningar og sagði lítið þó Vestramenn ynnu langt fram á kvöld fyrir leik og byrjuð eldsnemma á leikdegi að skafa af vellinum vatn. Meðal annars vegna þess að ómögulegt er að skafa vatn af velli fyrir en það er fallið af himni ofan, en algjört úrhelli var þegar á leikinn leið. Hitastigið var 0° og allir þeirri stund fegnastir þegar góður dómari leiksins blés lokaflautið.

Athugið að það var ekki um neitt annað að ræða en spila leikinn, Við þegar búnir að eyða tveimur dögum í ferðalag og enginn annar nothæfur leikdagur í augsýn. Það er komið haust og næsta knattspyrnuhöll á Akranesi. Reikna ekki með að forráðamenn Vestra hefðu verið spenntir fyrir að rúlla með okkur þangað til að spila við boðlegar aðstæður.

Það sem úrslitum réð í leiknum var vestanmenn mættu betur skóaðir til leiks. Sjóaðir mýrarboltamenn á tveggja ca tommu skrúftökkum var það sem gilti á Torfnespolli þennan haustdag.

Lokatölur Vestri-Leiknir 2-0.


Myndin var tekin kvöldið fyrir leik. Völlurinn var nánast allur á floti þegar leik lauk.

Eftir leik var sest upp í bílaleigubíla og við tók 860 km akstur heim með viðkomu á Bryggjnni sem er jú besti veitingastaðurinn á Akureyri. Heimkoma um miðnætti.


Leiknisliðið var því á ferðalagi (að heiman) í 87 klst á þessum 8 sólarhringum eða meira en 3 og hálfan sólarhring. Hefðum við ekki keypt seinkun á fluginu þann 12. frá Rvík, hefðum við náð því að vera meira en 4 sólarhringa á keppnisferðalögum þessa 8 daga/sólarhringa.


916 views0 comments

Recent Posts

See All

Samstarfið leitar að nafni!

Sameignilegt lið Leiknis og Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar leitar nú að nafni á félagsskapinn. Sérstök nafnanefnd hefur tekið til starfa og í henni sitja formenn aðalstjórna Þróttar, Austra, Vals og

bottom of page